skip to Main Content

LAXÁ Í LEIRÁRSVEIT

Ein skemmtilegast laxveiðiá landsins er Laxá í Leirársveit. Áin sem er í um 40 mínútna fjarlægð frá Reykjavík, hefur verið með aflahæstu ám landsins undanfarin ár hvort sem er miðað við fjölda laxa eða fjölda laxa á stöng á dag, en veitt er á 4-7 stöngum í senn í ánni. Meðalveiði síðustu ára er um 1.000 laxar auk þess sem að töluvert veiðist af vænum sjóbirtingi. Veiðstaðir, sem eru um 70, eru fjölbreyttir og aðgengi mjög gott að ánni. Áin er gríðalega skemmtileg fluguveiðiá með fjölda veiðistaða sem geta verið stút fullir af fiski.

Gott veiðihús er við Stóra Lambhaga, rétt fyrir ofan Laxfoss. Hver stöng hefur sér tveggja manna herbergi með baðherbergi með sturtu. Nýlega er búið að byggja við húsið góða borðstofu en auk hennar hafa veiðimenn aðgang að skemmtilegri setustofu og svo er að sjálfsögðu heiturpottur.

Hér verður veiðistöðum Láxár í Leirársveit lýst og stuðst við leiðsögn Hauks Geirs Garðarssonar. Haukur starfaði sem leiðsögumaður við ána í mörg ár.

Veiðistaðalýsing hefst einmitt þar sem Laxá rennur úr Eyrarvatni en það er neðst þriggja fallegra stöðuvatna í Svínadalnum. Þau heita Geitabergsvatn, Þórisstaðavatn og Eyrarvatn og er góð silungsveiði í þeim öllum auk þess sem einn og einn lax lætur glepjast.

36. Breiðan.

Efsti veiðistaðurinn í ánni er Breiðan, rétt fyrir neðan útfallið af Eyrarvatni , rétt við Vatnaskóg. Þar er gamalt brúarstæði og er annar tveggja bestu staðana á Breiðunni við brúarstæðið og rétt fyrir neðan það. Hinn er við steina sem eru rétt fyrir ofan brotið. Best er samt að byrja veiðina með því að vaða út fyrir ofan brúarstæðið og kasta á móts við það. Síðan er kastað sem næst syðri bakkanum. Þegar mikið vatn er í ánni getur fiskur hins vegar tekið um alla Breiðuna. Þetta er oftast góður veiðistaður en í þurrkum dvínar veiðin. Þegar best lætur er þetta frábær veiðsistaður

35a. Hornið.

Þessi staður gefur einhverja fiska á hverju sumri, þótt ekki teljist hann mjög gjöfull.

35. Krummastrengur.

Veiðistaðurinn leynir á sér og er djúpur og góður. Efirlæti margra. Tökustaðirnir eru allt frá því að vera efst í strengnum og niður undir þríhyrndan stein sem skagar upp úr ánni en besti punkturinn er í miðjum hylnum.

34. Tjaldhylur.

Þetta er langur og lygn veiðistaður. Hér er veitt frá norðurbakkanum og í strengnum sem rennur fast við suðurlandið liggur laxinn, fast við grasbakkann. Þetta er góður veiðistaður og oft er væna laxa að hafa þarna. Það má einnig segja um Tjaldhyl að þegar mikið vatn er í ánni færir laxinn sig neðar. Getur hann þá verið niðurundir brotið.

33. Holan

Holan er yfirleitt besti staðurinn í upp-ánni. Hér er alltaf fiskur og iðulega mjög stórir hængar innan um. Laxinn getur verið þarna mjög ofarlega en mest fyrir miðjum hylnum og meira við suðurlandið. Þetta er viðkvæmur staður þar sem mjög auðvelt er að styggja laxinn. Reynið því að vaða sem minnst út í hylinn. Í miklu vatni getur laxinn legið mjög neðarlega eða rétt fyrir ofan brotið. Veiða skal staðinn að norðanverðu og vaða örlítið út í ána þegar veitt er í neðri hlutanum.

32a. Nautastrengur.

Þetta var einu sinni mjög góður staður. Hann breytist með hverju ári og rétt að prófa, en eyða ekki miklum tíma í það. Eitt sumarið veiddist hér 22 punda lax á fluguna Vulturin Blue Elver og það er trúlega með stærri fiskum sem veiðst hafa í Laxá hin seinni ár. Besti staðurinn eru síðustu 10 metrarnir og niður á brot.

32. Hringir.

Gullfallegur veiðistaður í kjarri vöxnu og vinalegu umhverfi. Veiðistaðurinn þekkist á raflínum sem liggja yfir ána nánar tiltekið yfir neðsta hluta hylsins. Rétt ofan við línurnar að norðanverðu er klöpp á bakkanum og út frá henni eru 2-3 stórir steinar í jaðri aðal strengsins. Þar er besti tökustaðurinn og þarna eru oft stórir laxar. Í góðu vatni liggur oft fiskur upp í strengnum sunnan megin. Síðsumars er fiskurinn milli steina sunnan til í hylnum. Best er að kasta sem næst suðurbakka og leyfa flugunni að vinna sig yfir allann hylinn.

31a. Steinastrengur

Hjá Steinastreng hefur verið ýtt upp garði og fyrir ofan hann getur veiðst ef vatnshæð er nægjanleg. Hefur verið að koma meira inn síðustu sumur.

31. Kvörnin

Kvörnin er smáflúð með grjóti í botni, rétt ofan við Eyrarfoss. Þar er gott dýpi og drjúgir möguleikar á veiði.

30. Eyrarfoss

Eyrarfoss er afar fallegur hár foss og í honum er laxastigi. Þarna er oft mikið af fiski. Fiskur getur verið um allt en tökustaðir eru helst við klöppina að sunnanverðu.. Þarna getur hann tekið frá útfalli allt fyrir hornið. Í miklu vatni færir laxinn sig niður á brotið, sérstaklega síðasumars.

29a. Kvíastrengur

Hér hefur veið ýtt upp garði og víða í strengnum er veiðivon, einkum þó í kringum tvo stóra steina sem eru úti í miðjum hylnum, rétt fyrir ofan þá og neðan. Sumir segja að þetta sé góður “uppeldisstaður” fyrir laxa seiðin. Í miklu vatni getur fiskur einnig verið á brotinu. Þetta er gjöfull veiðistaður í góðu vatni.

29. Langistrengur

Áður fyrr var þetta mjög góður veiðistaður en hefur breytt sér. Ekki hefur tekist að færa hann í sama horf og áður en þarna veiðast þó nokkrir laxar hvert sumar, helst á brotinu.

28def. Merkjarennur I, II og II

Hér hefur verið ýtt upp görðum og nokkrir litlir veiðistaður búnir til, misgóðir á milli ára. Hér er rétt að fara hratt yfir en oft er hér fiskur í göngu.

28c. Állinn

Þetta er frekar mjór hylur sem fellur á grasbakka. Fiskurinn liggur yfirleitt undir og við grasbakkann. Veitt er af malareyrinni og best er að standa ofarlega og lengja köst frá sama stað því straumurinn í hylnum tekur fluguna alltaf rétt fyrir fiskinn.

28b. Laxeyri

Þetta er fallegur og djúpur hylur, svolítið vandveiddur. Í miklu vatni getur hann verið um allan hyl, en í lægra vatni efst þar sem strengurinn dýpkar skyndilega og um miðbik undir háum moldarbakka.

28a. Símon

Þetta er síðsumarstaður. Þarna rennur Súlá í Laxána og myndar sæmilega djúpa rennu. Fiskur virðist eingöngu vera þarna á haustin.

28. Bakkastrengur

Hann er beygjunni fyrir neðan ósa Súlár sem rennur í Laxá úr norðri. Það er til í dæminu að fá lax uppi í strengnum en yfirleitt heldur laxinn sig fast við bakkann þar sem strengurinn er tekinn að hægja á sér. Mestum tíma ættu menn að eyða á milli grjótruðninga á vestari bakkanum og út af grashorninu. Á haustinn leggst oft fiskur í strengina sem eru um 100 metrum neðar og er þá veitt frá suðurbakkanum.

27. Krókur

Hér er einkum veiðivon við neðsta grjótgarðinn og veitt frá malareyrinni. Bestur í miklu vatni.

26. Gránesfljót (Svarfhólshylur)

Þessi veiðsitaður er rétt fyrir neðan Krók og eru góðir tökustaðir víða. Frá Krók rennur áin með grasbakka og fellur að grashorni. Aðalstaðurinn er uppi í strengnum en lax getur líka legið neðar eða í sjálfum hylnum. Veitt er af eyrinni á móti.

25a. Skeifan

Skeifan er eiginlega tveir veiðistaðir, efri og neðri. Hér liðast áin í bugður og andspænis Gránesfljóti er leynistaðurinn Skeifan, sá efri. Veitt er frá mölini og kastað að grasbakkanum við grjótin. Hér ætti ekki að eyða löngum tíma, staðurinn er viðkvæmur. Í neðri hlutanum veiðir maður frá eyrunum norðanmegin og kastar að bakkanum við vegaslóðann. Mestir möguleikar eru í neðri hluta hylsin þar sem dýpið er mest en í góðu vatni getur lax legið alls staðar í þessum langa og fallega fluguhyl.

25b. Staurinn

Þetta er “nýr” veiðistaður sem hefur gefið fjölda fiska. Þarna liggur laxinn við girðingastaurinn og nokkuð ofar við báða garðana sem hafa verið settir norðanmegin í ána.

25. Laxhylur

Frekar grunnur strengur og misjafn á milli ára en hefur oft gefið góða veiði.

24b. Narfakotsstrengur

Gefur helst á haustin og þá helst með grasbakkanum í neðri hlutanum.

24. Kríuhlylur

Hann þekkist af um tveggja metra háum moldarbakka. Í dag hefur tökustaðurinn færst aðeins til og er nú bæði rétt fyrir ofan og neðan endann á skurðinum sem nú hefur verið fylltur.

23a. Götufljót

Þennan veiðistað er best að þekkja á stórgrýti á bakkanum við gulu trébrúnna. Þar er einnig grjót í botni og er helsta veiðivonin þar. Þarna er vert að eyða nokkrum tíma. Hylinn verður að veiða að norðan verðu.

23. Lukkupollur

Þetta er smástrengur með bakkanum og er sagt að staðurinn verði “lúmskur” með haustinu. Best er að vaða yfir ána fyrir ofan Götufljót, laxinn liggur með grasbakkanum við suðurlandið. Þarna er oft mikið af stórum sjóbirtingum.

22a. Hólskvörn

Hér stoppar fiskur í göngu en veiðvonin er ekki mikil, er fullgrunnur

22. Túnstrengur

Túnstrengur liggur rétt fyrir ofan Miðfellsfljót. Hann geymir helst fiska í miklu vatni. Þá liggur fiskurinn rétt við suðurbakkann, hann er því veiddur norðanmegin frá.

21. Miðfellsfljót

Þessi veiðistaður hefur verið kalaður “gullkistan” og sagði Rafn Hafnfjörð hinn mikli veiðisnillingur og ljósmyndari að þetta væri einn fallegasti fluguveiðistaður í veröldinni. Því má ætla að hér sé vert að staldra við og kasta út línu. Oft er fiskur undir brúnni í göngu. Það má segja að aðalstaðurinn sé þrískiptu. Efst er strengur sem rennur þvert en þar hafa margir týnt upp fjölda fiska í beit. Næst er miðstrengurinn, hann er nokkuð djúpur og getur verið skemmtilegur tökustaður. Síðan er það breiðan sjálf og þar er mesta fjörið. Laxinn liggur mikið á breiðunni miðri en færir sig neðar eftir því sem vatnsmagnið hækkar. Þetta er margslunginn veiðistaður, fjöldi tökustaða og yfirleitt nóg af laxi. Þetta er sá veiðsitaður í Laxá sem geymir flesta laxa að Laxfossi undanskildum. Segja má að Miðfellsfljót taki við laxinum úr Laxfossi. Þegar líður á sumarið fækkar fiski í fossinum þá fjölgar honum um leið í uppánni og mest í Miðfellsfljóti. Stundum má sjá 2-3 laxa á lofti í einu, en það er aðalsmerki Miðfellsfljóts.

20. Urðarstrengur

Hann er raunar tvískiptur því strengirnir liggja að báðum bökkunum. Þetta er góður staður og getur gefið bæði í litlu og miklu vatni. Laxinn er helst að finna miðsvæðis í syðri strengnum eða efst í þeim nyrðri. Í miklu vatni liggur laxinn neðar í strengnum með norðurlandinu.

19. Tungufljót

Þetta er þrískiptur strengur. Það er vel hægt að hitta á lax í efsta strengnum en meiri veiðivon er í miðstrengnum en mesta veivonin er í þeim neðsta og niður með grasbakkanum þegar vatn er got. Þetta er nokkuð gjöfull staður, sérstaklega þegar komið er fram í ágúst.

18. Ármót

Hér fellur Skarðsá í Laxá. Sumi elska þennan stað en aðrir láta hann alveg vera. Hann þarf töluvert vatn til að vera góður.

17. Steinsholtskvörn

Er er rétt fyrir neðan beygju á ánni þar sem rafmagnslína liggur yfir. Þar er lygna að vestanverðu. Þetta er fallegur staður þar sem mest von er við vestari bakkann en þó hafa stórir fiskar veiðst í miðjum hylnum. Athugið að kasta vel yfir að landinu því fiskarnir liggja mjög nærri landinu fjær, alveg niður á brot. Þarna fer flugulínan einstaklega vel

16a. Laxahólmi.

Hér veiðist vel í “góðu vatni”. Lax getur legið allt frá efsta hlutan hólmanns niður á lygnuna. Bestu tökustaðirnir eru í strengnum norðanverðum og niðurundir lygnuna einnig að norðanverðu. Þarna er oft mikið af fiski þegar líður á sumarið.

16b. Eyfastrengur.

Þessi strengur myndaðist þegar lokað var fyrir lænu sem rann í suður. Þarna má oft reka í göngulax. Þar fyrir neðan kemur síðan svæði án veiðihylja allt til Merkjastengja.

16 Merkjastrengir I

Þeir eru skráðir tveir á veiðikortinu en geta alveg eins talist þrír því sá efri er tvískiptur. Efst í honum er lítil hola við stóran stein sem gefur stundum veiði en neðar er áin grynnri og fellur í stokk. Þar er nær alltaf fiskur, einnig á haustin.

15. Merkjastrengir II

Er lygnari og með fallegri breiðu, hann er góður í miklu vatni. Neðarlega á þeirri breiðu eru steinar í botninum sem laxinn liggur við og þar er aðaltökustaðurinn.

14. Klapparstengur

Hér fellur áin þvert upp að klöpp. Laxinn er þarna efst og síðan niður með klöppinni, bestur fyrir miðju. Oft er hér lax í göngu. Gott er að vaða út á klöppina en standa frá hylnum til að fæla ekki fiskinn. Einnig hægt að veiða að norðanverðu.

13. Breiðifoss

Sérstakur veiðistaður sem ekki er allra. Laxinn liggur yfirleitt við stein undir norðurlandinu en hann getur einnig tekið hvar sem er í hvítfryssinu. Sumir veiða ofan af brúninni. Þarna safnast laxinn fyrir í litlu vatni.

12. Jónsstrengir

Þetta eru lygnir pollar með strenglænum á milli. Þar er víða veiðivon, t.d. í straumröndinni þar sem hægir á efsta strengnum. Best er þó að veiða neðst.

11. Sunnefjufoss

Fossinn kemur í beinu framhaldi af Jónsstrengjum. Hann er ekki hár og fellur í lítið gljúfur eða stokk. Í miklu vatin er einnig álitleg læna með suðurlandinu. Þetta er ágætur veiðsistaður og laxinn getur tekið í straumröndinni alveg niður undir brot. Á norðurbakkanum er skora í berginu sem hægt er að veiða úr. Einu sinni stóð veiðimaður í þessari skoru og kastaði flugu á fosshylinn. Það var ganga í ánni og mikil læti í hylnum. Í hverju kasti komu laxar á eftir flugunni, allt að þrír í einu, og þegar maðurinn hafði reist laxa um 40 sinnum með þessum hætti án þess að einn einasti fiskur tæki fluguna leist honum ekki á blikuna. Hann greip til þess ráðs að halda flugunni kyrri augnablik er lax elti og það hreif. Veiðimaðurinn setti í laxinn og fékk síðan ágætis veiði. Þessi veiðistaður er best veiddur ofan af klöppinni en þá er gott að hafa veiðifélaga með sér til að landa laxi neðan við klöppina.

10. Ljónið

Þetta er einn af betri veiðistöðum árinnar. Hér standa saman tveir klettar, annar er stór en hinn lítll og tilsýndar minnir sá efri á ljón sem liggur fram á lappirnar. Þennan veiðistað má veiða frá hvorum bakkanum sem er og fer það eftir smekk hvers og eins hvor aðferðin er valin. Út af stóra klettinum er strax von á fiski en síðan má veiða niður eftir öllu. Mjög góður staður. Bestur á milli klettanna, gott er að standa tvo metra frá hyl ef veitt er af sandeyrinni til að styggja ekki.

9. Whiskystrengur

Í miklu vatni má stundum fá veiði efst í strengnum sem fellur með suðurlandinu. Þetta er mishittinn veiðistaður. Oft er þar ekkert að fá, en snemma sumars þegar lax er í göngu á strengurinn til að fyllast af fiski. Svo mikill er fiskurinn að menn trúa vart sínum eigin augum. Þetta gersit einkum þegar fiskur hefur safnast mikið fyrir neðan Laxfoss og gengið hægt upp fyrir. Þegar skilyrðin verða ákjósanleg rennur allt stóðið upp úr og þá fyllist þessi veiðistaður um stundarsakir. Eitt sumarið hafði lítið af fiski gengið upp fyrir Laxfoss. Í lok júnímánaðar komu þar að tveir veiðimenn og sáu að minnsta kosti 150 laxa í þessum litla streng.

8. Kattafossar

Gefur fáa fiska á hverju sumri. Einstaka sinnum er fiskur á pallinum fyrir ofan fossinn.

7a Hundsfljót

Hundsfljótið gefur oft nokkra laxa bæði á göngutíma og eins hafa laxar fengist þarna sum haustin.

7. Hundsfoss

Örfáir laxar hafa veiðst úr Hundsfossi.

6. Kleifarstrengur

Er í beygjunni þar fyrir ofan Laxfoss. Lítill strengur sem göngufiskur stoppar aðeins í. Þarna hafa líka fengist laxar að hausti til.

5a. Klettastrengur

Er strax fyrir ofan Laxfoss, þarna má rekast á göngufisk.

5. Laxfoss

Fossinn er annar tveggja gjöfulustu veiðistaða í Laxá í Leirársveit. Laxinn getur legið víða í Laxfossi og fer það að mestu eftir vatnshæð hverju sinni. Í litlu vatni getur hann td. legið í rennum undir Háafossi sem er nyðri hluti Laxfoss. Undir aðalbununni að sunnanverðu er ker þar sem oft er hægt að fá lax, helst þá á þyngdar túbur. Aðalveiðisvæðið er frá hvítfryssinu að sunnanverðu og niður breiðuna, meðfram klöpp sem er í botninum og alveg niður undir brot. Veiðimenn skulu þó einnig verja tíma í kasta við steininn neðst á breiðunni og á blábrotið. Best er að veiða Laxfoss frá suðurlandinu annað hvort með því að standa upp á klöppinni eða vaða út í hylinn. Þó ber að varast að vaða of langt útí og eins of neðarlega. Slíkt skilar agninu til laxins úr meiri fjarlægð og rennslið verður betra heldur en þeir sem kjósa að veiða norðan megin Þetta er frábær veiðistaður, einkum fyrri hluta sumars. Oft morar allt í laxi undir Lasfossi.

4. Vaðstrengir I, II og III

Sá efsti er bestur og frábær veiðistaður fyrri hluta sumars, en þá getur laxinn legið efst í syðri strengnum og síðan báðum megin við steininn sem stendur yfirleitt upp úr ánni í miðjum hylnum og í rennunni þar fyrir neðan. Rétt fyrir neðan undir lágum klapparási á norðurbakkanum er Vaðstrengur II og er hann einnig mjög góður veiðistaður. Þar er fiskurinn aðalega fyrir miðjum hylnum rétt fyrir ofan brotið. Vaðstrengur III er síðan þar sem lítill klettaveggur gengur fast að ánni á norðurbakkanum og rétt fyrir neðan hann fellur lítill lækur í Laxá. Laxinn getur tekið í streng kantinum alveg frá hvítfryssi og niður úr. Bestur er þessi veiðistaður fyrir neðan umræddan lækjarós. Þar stendur stór steinn upp úr ánni að norðanverðu og laxinn er ofan hans og rétt fyrir neðan hann. Áin er fremur grunn þarna og því gefur strengurinn helst þegar talsvert vatn er í ánni.

3. Grettsistrengir

Þetta er nokkuð vítt og straumhart svæði með holum, glufum og smugum utan um eða umhverfis stórgrýti í botninum. Þarna eru margi álitlegir pyttir. Þegar lax er í göngu er þetta gjöfult veiðisvæði og mörg dæmi þess að menn hafi tekið þarna marga laxa í beit á skömmum tíma. Helsta veiðivon er út af skiltinu, breiðan fyrir ofan og strengurinn fyrir neðan að sunnanverðu.

2. Grettisbreiða

Hér getur lax byrjað að taka efst í strengnum en besta tökusvæðið er neðar, eða frá miðri breiðu og út undir hvalbak sem stendur upp úr miðri á. Þetta er mjög góður veiðistaður á göngutímanum en hann er viðkvæmur og gefur sjaldan marga laxa í einu. Best er veiða hann við nyrðri bakkann. Hér verður að fara varleg, standa ofarlega, ekki vaða útí ána og kast niður fyrir sig enda liggur laxinn stundum nálægt norðurlandinu.

1. Stekkjarnesstrengur

Þetta er veiðilegur strengur sem gefur oft vel framan af sumri þegar laxinn er í göngu. Tökustaðir eru víða í strengnum, heitasti staðurinn er þó í miðjum strengnum og einnig neðarlega. Í miklu vatni getur lax tekið alveg niður undir klettavegg sem gengur fram í ána frá suðurbakka. Veitt er norðan frá og ofar þegar vatn minnkar.

0. Mjóhylur

Er rétt fyrir ofan sláturhúsið þar sem áin fellur að klöpp á norðurbakkanum. Þar má oft fá lax á göngutímanum.

-1 Brúarhylur

Í Brúarhylnum stoppar laxinn oft í litlu vatni og má þá sjá torfurnar synda þarna um fram og til baka. Þá má setja í laxa þarna á göngu eins og Garðar Geir Hauksson gerði fyrir nokkrum árum en þá setti hann í nýgengin 16-17 punda hæng í lok júní á litla flugu og flotlínu. Stóð baráttan yfir í um klukkustund og var laxinum landað um 200 metrum frá tökustaðnum. Þarna má einnig oft fá góða sjóbirtinga.

-2 Klapparhylur

Er neðsti staðurinn í ánni en þarna fellur sjór inn á háflæði. Liggur út af stórri klöpp við norðurlandið. Þarna veiðast oft laxar og sjóbirtingar þegar lítið vatn er í ánni.

Back To Top