skip to Main Content

Við Þórir Grétar vorum mættir upp eftir klukkan 06.04 því það tekur ekki nema 20 mínútur að keyra þangað en ekki klukkutíma eins og ég hélt! Við bjuggumst ekki við neinu enda áin nýbúin að opna. Þess vegna vorum við ánægjulega hissa á að uppgötva hversu stórkostleg áin er. Steinsnar frá bænum, kostar minna en tvær vaktir í Elliðaánum og endalaus fjöldi af kynþokkafullum veiðistöðum. Við byrjuðum í Miðfellsfljóti og skönnuðum nokkra staði á hverju svæði en urðum lítið varir við fisk nema í Kvíastreng. En í Laxfossi gerðust ævintýrin rétt fyrir hádegi eða á Sunray Time! Stöðugt líf, eltingaleikir og vesen, tveir misstir og tveir náðir. Smálax og stórlax. Þórir barðist við einn lengi lengi sem hann tók á Metallicu tungsten smatúbu en klúðraði gersamlega löndun með því að skella skolleyrum við góðum ráðum frá makkernum. Núnú… við áttum fossinn aftur seinast í kvöld og það var ljóst að fiskurinn hafði fjölgað sér hratt og var nú allur á lofti. Ási bróðir var mættur og skipti engum togum að hann setti í einn … en missti hann. Hann setti strax í annan en lenti í sömu gildru og Þórir Grétar að hlusta ekki á eina manninn af okkur þremur sem hafði landað fiski þarna í fossinum!!!  Því fór sem fór. Fiskurinn sleit í löndun og tíminn var búinn. Við erum fáránlega staðráðnir í að fara þangað aftur því eins ótrúlegt og það hljómar er enn mikið laust og hægt að kaupa staka stangardaga eins og við gerðum. Takk fyrir okkur. Þetta var GEÐVEIKT!!

Back To Top